11.625.262 ISK
15. Nóvember 2025
Smileycoin (SMLY)
ismynt.is
Sagan og tilgangurinn: Menntun, rannsóknir og góðgerðastarf
Rafmyntin SmileyCoin, eða Broskallar, var ræst árið 2014 sem mynt á sinni eigin keðju, til að styðja menntaverkefni. Myntin og bálkakeðjan voru í upphafi byggðar á Litecoin og hafa frá upphafi haft sterka tengingu við menntun, fyrst á Íslandi og síðar í Afríku (sjá "From smileys to Smileycoins - Using a cryptocurrency in education"). Myntin hefur verið þróuð áfram sem hluti af ýmsum rannsókna- og þróunarverkefnum, mest í samstarfi Háskóla Íslands og Styrktarfélagsins Broskalla. Þúsundir nemenda eru virkir notendur myntarinnar.
Notendur í Afríku
Myntin varð hluti af Broskallaverkefninu, en nemendur í Afríku geta unnið sér inn Broskalla með því að læra stærðfræði o.fl., í kennslukerfinu SmileyTutor. Þróaðar hafa verið tæknilegar útfærslur til að myntin geti betur sinnt þessu hlutverki sínu. Til dæmis eru reknar um 35 Broskallabúðir (SmileyStores) í Afríku þar sem nemendur geta keypt fyrir SMLY en þær búðir eru skráðar á keðjuna sem þjónusta (on-chain service, sjá "On-chain Services for Education in Slums and Refugee Camps"). Greiðslur eru auðveldaðar með því að búðirnar birtast í fellilista í veskjum nemenda. Styrktarfélagið Broskallar fær styrki og styður m.a. Broskallabúðirnar með því að kaupa af þeim Broskalla. Yfir 7000 nemendur í Afríku hafa notað SmileyTutor til að vinna sér inn SmileyCoin á þennan hátt.
Notendur á Íslandi
Nemendur við HÍ og LbHÍ hafa notað SmileyTutor kennslukerfið (áður tutor-web) um áratuga skeið. Á Íslandi vinna nú ýmsir skólar, Rauði Krossinn og Styrktarfélagið Broskallar saman að því að efla menntun innflytjenda. Þetta samstarf byggir á sama grunni og í Afríku, þ.e. nemendur læra með SmileyTutor þar til afburðaárangri er náð og fá þá SmileyCoin sem má nota til að kaupa ýmislegt, m.a. spjaldtölvur og afsláttarkóða sem fyrirtæki hafa gefið.
Námugröftur
Námugröftur Broskalla er að mestu sambærilegur við námugröft Bitcoin og Litecoin (raunar með fleiri algrímum) en umbun til grafara (block reward) er aðeins 10% af nýmyndun myntarinnar (coinbase). Restin skiptist jafnt, 45% í arðgreiðslur til þeirra sem eiga a.m.k. 25 milljónir SMLY á einu veskisfangi og 45% fara í góðgerðastarfsemi. Uppskipting nýmyndunar leiddi til þess að grafarahópurinn varð aðallega áhugafólk um þessa rafmynt auk þess sem fólki sem fjárfestir talsvert í myntinni er umbunað sérstaklega.
Hvað fæst með því að kaupa SMLY?
Kaup á 25 M SMLY gefur arðgreiðslur og styður þessi samfélagsverkefni.
Frekari upplýsingar
- https://smileyco.in
- SmileyCharity Broskallar, linkedin page
- "From smileys to Smileycoins - Using a cryptocurrency in education"
- "On-chain Services for Education in Slums and Refugee Camps"